Heiðursfélagar

 

 

Hér er að finna nöfn þeirra manna sem hlotið hafa nafnbótina "heiðursfélagi"  Skotfélags Snæfellsness. Það eru einstaklingar sem heiðraðir hafa verið af félaginu fyrir óeigingjarnt sjáflboðastarf til eflingar félagsins.

 

 


 

1#  Þorsteinn Björgvinsson  (5. júlí 1997)

 

Þorsteinn Björgvinsson var gerður að heiðursfélaga Skotfélags Snæfellsness (þá Skotfélags Grundarfjarðar) á aðalfundi félagsins þann 5. júlí árið 1997. 

 

Þorsteinn Björgvinsson var einn af stofnendum félagsins árið 1987 og sat í stjórn félagsins öll ár fram að heiðrun árið 1997.

 

Hann var svo aftur heiðraður á héraðsþingi HSH sem haldið var í Samkomuhúsi Grundarfjarðar þann 9. apríl árið 2013.  Þá var hann heiðraður með starfsmerki ÍSÍ (gullmerki) fyrir óeigingjörn störf í þágu Skotfélags Snæfellsness.

 

 

 


 

2#  Karl Jóhann Jóhannsson (25. maí 2017)

 

Karl Jóhann Jóhannsson var gerður að heiðursfélaga Skotfélags Snæfellsness á aðalfundi félagsins þann 25. maí árið 2017. 

 

Karl Jóhann var einn af stofnendum Skotfélags Snæfellsness sem í þá daga hét Skotveiðifélag Grundarfjarðar.  Hann sat í stjórn félagsins frá árinu 1989 til ársins 2000 eða í 11 ár og þá oftast sem formaður félagsins. 

Karl Jóhann var ein mesta driffjöðurin í starfi félagsins í þau ár sem hann sat í stjórn félagsins þar til hann dró sig í hlé.  Hann er og hefur verið félagsmaður alveg frá stofnun félagsins en hefur ekki átt þess kost að taka virkan þátt í starfsemi félagsins undanfarin ár.  Skotfélag Snæfellsness á Karli Jóhanni margt að þakka.

 

Karl var einnig heiðraður á þessum sama fundi með starfsmerki ÍSÍ (silfurmerki) fyrir óeigingjörn sjálfboðaliðastörf fyrir Skotfélag Snæfellsness.

 

 

 

3#  Birgir Guðmundsson (25. maí 2017)

 

Birgir Guðmundsson var gerður að heiðursfélaga Skotfélags Snæfellsness á aðalfundi félagsins þann 25. maí árið 2017. 

 

Birgir var einnig einn af stofnendum félagsins og hefur verið mjög virkur félagsmaður alla tíð síðan.  Hann sat í stjórn félagsins fyrstu tvö starfsár félagsins og hefur verið stjórnum félagsins innan handar alveg frá stofnun þess.  Birgir hefur verið einn virkasti félagsmaður félagsins undanfarin ár og setið í stjórn félagsins síðastliðin frá árinu 2014.

Birgir er alltaf með fyrstu mönnum til að mæta þegar þarf að sinna verkefnum á vegum félagsins, hvort sem það sé vinnukvöld, skotvopnanámskeið, skemmtikvöld eða annað.  Þá er hann mjög reyndur skotmaður sem hefur verið duglegur að miðla reynslu sinni til annara reynsluminni skotmanna og leita þeir gjarnan til hans.  Framlag hans til félagsins er algjörlega ómetanlegt.

 

Birgir var einnig heiðraður á þessum sama fundi með starfsmerki ÍSÍ (silfurmerki) fyrir óeigingjörn sjálfboðaliðastörf fyrir Skotfélag Snæfellsness.

 

 

 

4#  Unnsteinn Guðmundsson (25. maí 2017)

 

Unnsteinn Guðmundsson var gerður að heiðursfélaga Skotfélags Snæfellsness á aðalfundi félagsins þann 25. maí árið 2017.

 

Unnsteinn var einn af stofnendum félagsins árið 1987, þá aðeins 21 árs gamall.  Unnsteinn var kosinn inn í stjórn félagsins árið 1989 og sat í stjórn félagsins óslitið í 17 ár eða til ársins 2006.  Þrátt fyrir að Unnsteinn hafi hætt í stjórn félagsins fyrir nokkrum árum til að hleypa öðrum að þá hefur hann aldrei verið langt undan og hefur starfað fyrir félagið af líf og sál.  Hann er mjög drífandi, ósérhlífinn og vil hafa snyrtilegt í kringum sig. 

Unnsteinn er ekki að mikla hlutina fyrir sér heldur tekur bara af skarið og gerir það sem þarf að gera, hvort sem hann gerir það einn síns liðs eða fær aðra félagsmenn með sér.  Unnsteinn hefur séð mikið um umhirðu og viðhald á vélabúnaði félagsins og er alltaf tilbúinn að mæta þegar á þarf að halda.  Félagið væri ekki eins vel í stakk búið ef það væri ekki fyrir störf Unnsteins.  Öll félög ættu að eiga einn Unnstein.

 

Unnsteinn var einnig heiðraður á þessum sama fundi með starfsmerki ÍSÍ (silfurmerki) fyrir óeigingjörn sjálfboðaliðastörf fyrir Skotfélag Snæfellsness.